Logi Ólafsson og Eiður Smári Guðjohnsen eru teknir við FH í Pepsi Max-deild karla. Samningur Loga og Eiðs er út tímabilið.
Ólafur Kristjánsson hætti í dag sem þjálfari FH til þess að taka við Esbjerg í dönsku B-deildinni og nú hafa Logi og Eiður verið ráðnir í hans stað.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Logi þjálfar FH því hann þjálfaði liðið einnig tímabilin 2000 og 2001. Hann hefur einnig þjálfað m.a. íslenska landsliðið, ÍA og Víking.
Þetta er annað þjálfarastarf Eiðs Smára, eins besta leikmanns í sögu íslenska fótboltans, en hann er núverandi aðstoðarþjálfari U21-árs landsliðsins í fótbolta og hefur verið það síðan Arnar Þór Viðarsson tók við liðinu í fyrra.
FH er með sjö stig eftir fyrstu fimm leikina í Pepsi Max-deildinni og komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Liðið mætir Fjölni á útivelli á laugardag í fyrsta leik þeirra Loga og Eiðs við stjórnvölinn en Guðlaugur Baldursson, sem var í þjálfarateymi Ólafs, verður einnig í teyminu með Loga og Eið.