Erlent

Segja Kín­verja hafa reynt að stela rann­sóknum á bólu­efni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákært tvo kínverska karlmenn, þá Li Xiaoyu og Dong Jiazhi, fyrir að reyna að brjótast inn í tölvukerfi bandarískra fyrirtækja sem unnið hafa að bóluefni við kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Ráðuneytið telur þá meðal annars hafa unnið fyrir kínversk stjórnvöld.

Samkvæmt ákærunni, sem spannar 11 ákæruliði, hófust tilraunir tvíeykisins til þess að brjótast inn í tölvukerfi fjölda tækni-, lyfja og varnarmálafyrirtækja fyrir meira en áratug síðan. Eins kemur þar fram að þeim hafi tekist að stela miklu magni gagna frá Bandaríkjunum, en einnig frá Ástralíu, Belgíu, Þýskalandi, Japan, Litáen, Hollandi, Spáni, Suður-Kóreu, Svíþjóð og Bretlandi. 

„Í að minnsta kosti eitt skipti reyndu hakkararnir að kúga rafmynt út úr fórnarlambi sínu, með því að hóta að birta frumkóða á hugverki viðkomandi á netinu. Mun nýlegar reyndu hinir ákærðu að finna veikleika á tölvukerfum fyrirtækja sem vinna að bóluefni gegn Covid-19, tækni við prófun og meðferð við sjúkdómnum,“ segir í yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins um málið.

Gögn tengd bóluefninu eru þó ekki meðal þeirra gagna sem mennirnir eru taldir hafa komist yfir. Þá telur ráðuneytið að mennirnir hafi unnið fyrir leyniþjónustu Kínverja, og veitt henni upplýsingar.

Mennirnir tveir eru ekki staddir í Bandaríkjunum og því ekki í haldi yfirvalda. Það var þó mat alríkissaksóknara að ólíklegt væri að mennirnir kæmu til með að stíga á Bandaríska grundu á næstunni. Því hafi dómsmálaráðuneytið tekið ákvörðun um að gefa ákæruna út opinberlega, í tilraun til þess að hún geti verið öðrum víti til varnaðar, frekar en að bíða þess að mennirnir kæmu til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×