Íslenski boltinn

Reyni leið illa að horfa á Blika kaffæra Skagamenn: „Leti vörn út um allan völl“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Kristófer Lárusson og félagar í vörn ÍA áttu í stökustu vandræðum í leiknum gegn Breiðabliki.
Aron Kristófer Lárusson og félagar í vörn ÍA áttu í stökustu vandræðum í leiknum gegn Breiðabliki. vísir/bára

Reynir Leósson átti erfitt með að horfa á fyrri hálfleikinn í leik Breiðabliks og ÍA í Pepsi Max-deild karla á sunnudaginn.

Sveitungar Reynis af Akranesi sáu ekki til sólar, lentu 4-0 undir eftir 39 mínútur og töpuðu leiknum, 5-3. ÍA hefur tapað þremur leikjum í röð og fengið á sig þrettán mörk í þeim.

„Þetta var rosalega léleg frammistaða og það var allt sem var rangt við hana. Ég var lítill í mér, leið illa og langaði nánast heim en ég þurfti að sinna skyldum mínum og horfa á þetta,“ sagði Reynir í Pepsi Max stúkunni í gær.

Varnarmenn ÍA áttu afar erfitt uppdráttar í leiknum á Kópavogsvelli og fengu litla hjálp frá mönnunum framar á vellinum.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti í sumar sem liðin eiga auðvelt með að fara framhjá mönnum einn á einn og menn hafa tíma og pláss inni í teignum til að skora mörk. Mínir menn voru í krummafót í varnarleiknum,“ sagði Reynir.

Guðmundur Benediktsson sagði að Skagamenn hefðu spilað letilega vörn í leiknum á sunnudaginn.

„Þetta er leti vörn út um allan völl,“ sagði Guðmundur. Reynir bætti í og sagði að varnarleikurinn hefði verið lélegur og miðju- og sóknarmenn ÍA væru þar ekki undanskildir.

„Við erum að tala um þessa öftustu fimm, varnarlínuna og Hlyn [Sævar Jónsson] sem fór í vörnina, og þeir áttu í vandræðum. En þá erum við ekki að fela frammistöðu annarra leikmanna í varnarleik liðsins. Þar fannst mér vera letileg varnarframmistaða allan leikinn. Og þegar þú ert ekki með betri varnarmenn en þetta og það er hægt að hlaupa á þá í gegnum miðjuna ertu dauðadæmdur,“ sagði Reynir.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Varnarleikur ÍA

Tengdar fréttir

Viktor óbrotinn en missir af leikjum - Með fimm mörk í júlí

Viktor Jónsson meiddist í ökkla um leið og hann skoraði fyrir ÍA gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni á sunnudag. Hann er óbrotinn en kemur til með að missa af nokkrum leikjum, eftir að hafa skorað fimm mörk í júlí.

Sjáðu markasúpuna í Kópavoginum

Átta mörk voru skoruð þegar Breiðablik tók á móti ÍA í Pepsi Max-deild karla í gær. Blikar skoruðu fimm markanna og lyftu sér upp í 3. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×