Íslenski boltinn

Segja að FH þurfi að ná sér í sóknarmann: „Einhvern sem getur gert gæfumuninn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Morten Beck Guldsmed hefur ekki enn tekist að koma boltanum í netið í sumar.
Morten Beck Guldsmed hefur ekki enn tekist að koma boltanum í netið í sumar. vísir/hag

Undir lok Pepsi Max stúkunnar bað Guðmundur Benediktsson þá Reyni Leósson og Davíð Þór Viðarsson að nefna hvar sex efstu liðin í Pepsi Max-deild karla þyrftu að styrkja sig. Félagaskiptaglugginn verður opnaður í næstu viku.

Davíð segir að Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson, þjálfarar FH, þurfi að finna sóknarmann til að létta undir með Steven Lennon. Skotinn hefur skorað sjö af fimmtán mörkum FH í Pepsi Max-deildinni í sumar.

„FH þarf einhvern fram á við. Morten [Beck Guldsmed] er ekki búinn að skora, verið meiddur og ekki fundið sig ennþá. Ég held að hann hafi gott af því að fá smá samkeppni. Þetta þarf ekki endilega að vera hreinræktaður framherji því Lenny getur auðveldlega leyst þá stöðu og Atli [Guðnason] er búinn að gera það ágætlega í þessi tvö skipti líka,“ sagði Davíð.

„En FH þarf einhvern sem getur leyst þessar þrjár stöður og jafnvel fremstur á miðjunni ef liðið spilar með tvo miðjumenn fyrir aftan og einn fyrir framan. Einhvern sem getur búið eitthvað til og gert gæfumuninn.“

Reynir tók undir með Davíð. „Það vantar einhvern sem brýtur upp leiki. Það er auðvelt að segja það að finna einhvern sem gerir og græjar hlutina fyrir þig,“ sagði Skagamaðurinn og stakk upp á því að FH fengi Dion Acoff, kantmanninn eldsnögga, frá Þrótti.

FH hefur þegar samið við Eggert Gunnþór Jónsson og þá er þrálátur orðrómur um að Emil Hallfreðsson komi aftur heim í Fimleikafélagið. Báðir eru þeir þó miðjumenn.

FH tekur á móti Þór í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla klukkan 18:00 í kvöld. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Hvað þurfa liðin?

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×