Enski boltinn

Wayne Rooney gagnrýnir Sir Alex Ferguson

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rooney í úrslitaleiknum 2011 sem fram fór á Wembley í Englandi.
Rooney í úrslitaleiknum 2011 sem fram fór á Wembley í Englandi. Vísir/Getty

Wayne Rooney – markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og enska landsliðsins – hefur gagnrýnt fyrrum stjóra sinn, goðsögnina Sir Alex Ferguson, í vikulegum pistli sínum í The Sunday Times.

Gagnrýnir hann þar upplegg Sir Alex Ferguson í úrslitaleikjum Meistaradeildar Evrópu árin 2009 og 2011. Fyrri leikurinn tapaðist 2-0 á meðan sá síðari tapaðist 3-1 en Rooney skoraði eina mark Man United í leiknum.

„Við töpuðum leikjunum þar sem við settum mikla pressu á þá og reyndum að sækja við hvert tækifæri,“ segir Rooney sem er nú leikmaður Derby County í ensku B-deildinni.

Rooney segir jafnframt að Ferguson hafi verið of stoltur til að mæta í úrslitaleikina og leggja rútunni ef svo má að orði komast.

„Við erum Manchester United og það er í menningu okkar að sækja til sigurs,“ sagði Ferguson en Rooney telur að leikmenn liðsins hafi vitað betur.

„Það skiptir engu máli hvernig þú spilar í þessum stóru leikjum í Meistaradeild Evrópu. Það eina sem skiptir máli er að vinna,“ sagði Rooney að lokum.

Leikmenn Man Utd komust aldrei nálægt Lionel Messi og félögum árið 2011.Vísir/Getty

Manchester United var ríkjandi Evrópumeistari er þeir mættu Barcelona árið 2009. Lið Sir Alex var mun betra í upphafi leiks en tókst ekki að brjóta ísinn. Mörk frá Samuel Eto‘o og Lionel Messi tryggðu Börsungum svo 2-0 sigur og þar með þrennuna á fyrsta tímabili Pep Guardiola. 

Hver veit hvað hefði orðið ef Man Utd hefði nýtt færi sín í upphafi leiks og landað sigri. Tveimur árum síðar átti United aldrei möguleika og mark Rooney var eina skot United á markið í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×