Bandarísku geimfararnir Doug Hurley og Bob Behnken lentu nú á sjöunda tímanum á jörðu eftir tveggja mánaða dvöl í Alþjóðlegu geimstöðunni. Lendingarstaðurinn var Mexíkóflói, rétt sunnan við borgina Pensacola í Flórída og formlegur lendingartími 18:45 að íslenskum tíma.
Lending Hurley og Behnken er talin marka ákveðin kaflaskil í bandarískri geimferðasögu. Ferð geimfaranna er sú fyrsta sem farin er út í geim með einkafyrirtæki, í þessu tilviki SpaceX. Þá er um að ræða fyrsta mannaða geimferðin undir bandarískum fána síðan árið 2011.

Björgunarmenn vinna nú að því að tryggja að geimfar þeirra Hurley og Behnken sé öruggt. Því verður svo lyft upp úr sjónum og geimfararnir geta þá komist út. Þeim verður því næst komið undir læknishendur og að henni lokinni fara þeir með þyrlu í land.
Fylgst var með heimferð geimfaranna í beinni útsendingu NASA, Geimferðarstofnunar Bandaríkjanna. Hana má enn nálgast í spilaranum hér að neðan.