Erlent

Fundust heilir á húfi á eyði­eyju

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjómennirnir fundust heilir á húfi á smáeyjunni Pikelot.
Sjómennirnir fundust heilir á húfi á smáeyjunni Pikelot. EPA/AUSTRALIAN DEFENCE FORCE

Þremur míkrónesískum sjómönnum sem strönduðu á örsmárri eyðieyju í vestur-Kyrrahafi var bjargað eftir að björgunarsveitamenn komu auga á SOS-merki sem þeir höfðu skrifað í sandinn á strönd eyjarinnar.

Mennirnir fundust á Pikelot eyju, sem er hluti af sambandsríki Míkrónesíu, á sunnudaginn af áströlskum og bandarískum leitarteymum. Þeirra hafði verið saknað í þrjá daga eftir að smábátur þeirra varð eldsneytislaus og reikaði af leið.

Allir voru þeir hraustir og enginn þeirra slasaður. Yfirvöld í Guam, yfirráðasvæði Bandaríkjanna í „næsta nágrenni“, hófu leit að mönnunum á laugardag eftir að þeir skiluðu sér ekki í höfn en þeir voru á 42 km leið frá Pulawat til Pulap atoll.

Þess í stað höfnuðu mennirnir á Pikelot eyju, nærri 200 km vestur af Pulawat, þaðan sem þeir hófu ferðina.

Eftir að SOS-merki sem þeir rituðu í sandinn sást úr lofti lenti áströlsk þyrla á eyjunni og gaf mönnunum vatn og mat. Sjómennirnir voru svo fluttir heim síðar sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×