Erlent

Táningur segist saklaus af innbroti hjá Twitter

Kjartan Kjartansson skrifar
Innbrotið var það vandræðalegasta fyrir Twitter. Þrjótarnir blekktu starfsmenn til þess að komast yfir auðkenni sem gaf þeim aðgang að innra kerfi samfélagsmiðilsins.
Innbrotið var það vandræðalegasta fyrir Twitter. Þrjótarnir blekktu starfsmenn til þess að komast yfir auðkenni sem gaf þeim aðgang að innra kerfi samfélagsmiðilsins. AP/Matt Rourke

Sautján ára gamall piltur sem er sakaður um að hafa brotist inn í tölvukerfi samfélagsmiðilsins Twitter neitaði sök þegar hann kom fyrir dómara á Flórída í Bandaríkjunum í dag. Sá eða þeir sem stóðu að innbrotinu komust tímabundið yfir reikninga fjölda þekktra einstaklinga og notuðu þá til að svíkja fé út úr fylgjendum þeirra.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, og Elon Musk, stofnandi SpaceX og Tesla, voru á meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á innbrotinu. Tölvuþrjótarnir komust í reikningana með því að brjótast inn í innra kerfi Twitter.

Pilturinn er sakaður um fjársvik og var handtekinn í Tampa á föstudag. Hann er sagður hafa komist yfir að minnsta kosti hundrað þúsund dollara, jafnvirði um 13,6 milljóna króna, með því að gabba fylgjendur þekktu einstaklingana til að senda honum fé í rafmyntinni bitcoin, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Nítján ára gamall Breti og 22 ára gamall karlmaður í Orlando á Flórída eru einnig ákærðir fyrir aðild að árásinni, sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins.

Twitter hefur greint frá því að þrjótarnir hafi líklega lesið persónuleg skilaboð einhverra einstaklinganna, þar á meðal hollensks stjórnmálamanns. Pilturinn er sakaður um að hafa blekkt starfsmann Twitter sem hélt að hann væri samstarfsmaður sinn. Fékk pilturinn starfsmanninn til þess að fá sér auðkenni til þess að komast inn í innra kerfi Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×