Erlent

Sendu Líbönum sam­úðar­kveðjur vegna sprengingarinnar í Beirút

Kjartan Kjartansson skrifar
Almennir borgarar bera særðan mann eftir ógnarmikla sprengingu í Beirút í dag. Sprengingin er sögð hafa lagt stóran hluta hafnarsvæðisins við jörðu. Tala látinna fer hækkandi en staðfest er að tugir í það minnsta hafi farist.
Almennir borgarar bera særðan mann eftir ógnarmikla sprengingu í Beirút í dag. Sprengingin er sögð hafa lagt stóran hluta hafnarsvæðisins við jörðu. Tala látinna fer hækkandi en staðfest er að tugir í það minnsta hafi farist. AP/Hussein Malla

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sendu Líbönum samúðarkveðjur vegna sprengingarinnar mannskæðu í Beirút í dag. Að minnsta kosti sextíu manns eru sagðir hafa farist og þúsundir slasast.

Sjúkrahús er sögð yfirfull í Beirút eftir að gríðarleg sprenging á hafnarsvæðinu skók borgina. Hún olli gríðarlegri eyðileggingu og er talið að fjöldi manna gæti verið grafinn í rústum. Ekki liggur enn fyrir hvað olli sprengingunni en vangaveltur eru um að eldur hafi komist í natríumnítrat, afar sprengifimt efni sem var í geymslu á höfninni.

Í tísti í kvöld sagði Katrín forsætisráðherra fréttirnar frá Beirút sláandi. Íslenska þjóðin finni til með fjölskyldum sem hafa misst ástvini og þeim þúsundum sem eru slösuð.

„Hugsanir okkar eru með líbönsku þjóðinni á þessari stundu,“ tísti Katrín.

Guðlaugur Þór sagðist í tísti harmi sleginn yfir atburðunum og bauð fram aðstoð Íslands við björgunaraðgerðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×