Erlent

Yfir 100 látin og þjóðarsorg lýst yfir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eyðileggingin sem sprengingin olli var gríðarleg.
Eyðileggingin sem sprengingin olli var gríðarleg. Marwan Tahtah/Getty

Þjóðarsorg ríkir nú í Líbanon eftir hina gríðarlega öflugu sprengingu sem varð í gær á hafnarsvæðinu í höfuðborginni Beirút. Rúmlega hundrað hafa látist, rúmlega 4.000 særðust og ljóst er að látnum mun fjölga. Rúmlega hundrað er enn saknað.

Sprengingin gríðarlega fannst um alla borgina en hún virðist hafa orsakast af eldi sem fór að loga í vöruhúsi við höfnina. Þar höfðu 2750 tonn af ammóníumnítrati verið geymd við slæmar aðstæður um sex ára skeið, að því er forseti landsins greindi frá í ávarpi í gærkvöld. Ammóníumnítrat er uppistaðan í venjulegum áburði, en er afar eldfimt og sums staðar flokkað sem sprengiefni. Hér að neðan má sjá loftmyndir af eyðileggingunni sem sprengingin olli.

Árið 1995 notuðu bandarískir hryðjuverkamenn um tvö tonn af efninu þegar þeir sprengdu alríkisbygginguna í Oklahoma í loft upp. Forseti Líbanons, Michel Aoun sagði í gær að það væri óásættanlegt að slíkt efni hefði verið geymt við svo slæmar aðstæður við höfnina og það í viðlíka magni. Hann lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og lofaði að ríkisstjórnin ætlaði að leggja jafnvirði um níu milljarða króna í neyðaraðstoð.

Þá boðaði Auoun ríkisstjórnina á neyðarfund í dag, og sagði að lýsa ætti yfir tveggja vikna neyðarástandi í landinu. Búið er að hefja rannsókn til þess að komast að því hvað það var nákvæmlega sem olli sprengingunni. Heimavarnarráð Líbanon hefur þá lýst því yfir að hver sem beri ábyrgð á málinu ætti að hljóta þyngstu mögulegu refsingu.

Michel Aoun, forseti Líbanons.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×