Erlent

Reiknað með að líbanska ríkisstjórnin segi af sér vegna sprengingarinnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Miðpunktur sprengingarinnar.
Miðpunktur sprengingarinnar. AP Photo/Hussein Malla

Búist er við því að ríkisstjórn Líbanon muni segja af sér síðar í dag, innan við viku frá því að gríðarstór sprenging lagði hluta Beirút, höfuðborgar landsins, í rúst.

CNN og Sky News greina frá og hafa eftir heimildarmönnum innan líbanska stjórnkerfisins. Þrír ráðherrar og sjö þingmenn hafa þegar sagt af sér vegna sprengingarinnar, sem varð minnst 160 að bana.

Sem stendur er áætlað að um 6000 manns hafi særst í sprengingunni og að á fjórða hundrað þúsund hafi misst heimili sín eða hafist við í löskuðum byggingum. Þannig eru þúsundir íbúða ýmist glugga- eða hurðalausar eftir sprenginguna.

Mikil pólitísk ólga er jafnframt í landinu eftir sprenginguna, sem talin er til marks um opinbera vanrækslu og sinnuleysi. Þannig hefur verið mótmælt í Beirút síðustu daga. Sprengingin varð í vöruhúsi þar sem verið var að geyma ammóníum nítrat sem notað er í áburð og sprengiefni.

Búist er við því að Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon, sem komst til valda í desember síðastliðinn muni segja af sér síðar í dag, ásamt öðrum ráðherrum sem þegar hafa ekki gert það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×