Erlent

Kamala Harris varaforsetaefni Biden

Samúel Karl Ólason skrifar
Öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris.
Öldungadeildarþingmaðurinn Kamala Harris. AP/Bryan Anderson

Joe Biden, væntanlegur forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hefur valið Kamala Harris sem varaforsetaefni sitt. Harris er 55 ára öldungadeildarþingmaður frá Kaliforníu og bauð hún sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir kosningarnar.

Hún verður fyrsta þeldökka konan í framboði í forsetakosningum í Bandaríkjunum en foreldrar hennar eru frá Jamaíka og Indlandi.

Harris starfaði á árum áður sem saksóknari í Kaliforníu og var hún gagnrýnd vegna þessa í forvali Demókrataflokksins. Sú staðreynd féll ekki í kramið hjá ungu framsæknu fólki og þeldökkum kjósendum flokksins, sem telja hana ekki samstíga þeim varðandi kerfisbundinn rasisma í réttarkerfi Bandaríkjanna.

Biden hefur varið mörgum mánuðum í þessa ákvörðun en snemma í framboði sínu hét hann því að velja konu sem varaforsetaefni. Leitin náði til fjölmargra kvenna í Demókrataflokknum og má þar nefna öldungadeildarþingkonuna Elizabeth Warren, þingkonurnar Val Demings og Karen Bass, Susan Rice, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Barack Obama, og Keisha Lance Bottoms, borgarstjóra Atlanta.

Fjölmiðlar vestanhafs höfðu sagt frá því að Biden hefði reiðst Harris í kosningabaráttu þeirra en AP fréttaveitan segir að þau hafi lappað upp á samband þeirra en Harris var einnig vinkona sonar Biden, Beau.

Varaforseti Biden mun í raun hafa meiri líkur á því að verða forseti en margir aðrir varaforsetar. Vinni Biden gegn Donald Trump í nóvember verður hann 78 ára gamall þegar hann tekur við embættinu í janúar á næsta ári. Biden yrði elsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna.

Þar að auki hefur Biden ekki heitið því að bjóða sig fram til annars kjörtímabils, beri hann sigur úr býtum að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×