2020 er árið sem allir vilja ýta á ,,restart“ takkann! Hvar værir þú, ef.... ef og hefði.... hvar værum við nú? Værum í áhyggjulausum, vellystingum gætum farið á B5, mætt í allar fermingarveislur, brúðkaup, skemmt okkur eins og enginn væri morgundagurinn og farið í verslunarferðir til Boston og til Evrópu, ég tala nú ekki um golfferðirnar.
Raunveruleikinn er annar, við sitjum í sömu súpunni og allir jarðarbúar. Þurfum að reiða okkur á ákvarðanir stjórnvalda, bíða eftir bóluefninu og fara varlega, en hvað hafa kynslóðir á undan gert?
Kynslóðir á undan hafa unnið sig út úr kreppum og komist yfir þær. Ljóst er að við þurfum fleiri aðila í nýsköpun! Fleiri aðila sem búa til nýskapandi lausnir! Öll þurfum við að taka þetta til okkar, sérstaklega á þetta við konur.
Í skýrslu frá 2019 þar sem Reykjavík economics vann fyrir Íslandsbanka er sagt frá að helmingi færri konur en karlar hafa stofnað fyrirtæki á síðustu 16 árum. Hlutfall þeirra hefur þó hækkað nokkuð, en ekki nóg.
Í skýrslunni segir frá að einkaleyfisskráningar eru nokkuð í sókn en við stöndum þó langt að baki Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi í þeim efnum, nýjar tölur þarf þó að skoða, miðað við ástandið síðustu mánuði. Í skýrslunni kemur fram að einungis 18% útflutningstekna eiga uppruna sinn utan sjávarútvegs, útflutnings iðnaðarvara og ferðaþjónustu. Ljóst er miðað við ástand núna þurfum við að hækka það hlutfall verulega.
Jú við þurfum að spýta í lófana, taka umhverfis- og veiruvána föstum tökum, haustið verður erfitt.
Þessa dagana fer fram nýsköpunarkeppni gagnaþon, þar sem leitað er af nýskapandi lausnum fyrir umhverfið. Margar stofnanir hafa opnað gögn sín, taktu þér tíma, kannaðu hvað þessi nýsköpunarkeppni snýst um. Skráðu þig, tengdu þig við fleiri í nýsköpunarumhverfinu. Leið til að efla tengslanetið.
Með þátttöku gætir þú lært eitthvað nýtt, gætir unnið til verðlauna, gætir stofnað nýtt fyrirtæki. Þetta gæti leitt til einhverrar nýrrar vegferðar til framtíðar. Allar nánari upplýsingar eru að finna á hakkathon.island.is. Þú getur skráð þig til leiks til 16. ágúst.
Það sakar ekki að taka skrefið og skrá sig!
Höfundur er verkefnastjóri, sérfræðingur í stafrænni makraðssetningu.