Íslenski boltinn

Valur og KR mætast í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar tollera þjálfara sinn, Rúnar Kristinsson, eftir að þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 0-1 sigri á Valsmönnum á Hlíðarenda síðasta haust. Titilvörn KR hefst á sama stað.
KR-ingar tollera þjálfara sinn, Rúnar Kristinsson, eftir að þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 0-1 sigri á Valsmönnum á Hlíðarenda síðasta haust. Titilvörn KR hefst á sama stað. vísir/bára

Íslandsmeistarar KR sækja Val heim í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla miðvikudaginn 22. apríl.

Mótanefnd KSÍ hefur birt drög að leikjum Pepsi Max-deildar karla tímabilið 2020. Niðurröðun Pepsi Max-deildar karla má sjá með því að smella hér.

KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með 0-1 sigri á Hlíðarenda í haust. Titilvörn KR-inga 2020 hefst á sama stað.

Valur og KR mættust í upphafsleik Pepsi-deildarinnar fyrir tveimur árum. Valsmenn unnu þá dramatískan 2-1 sigur frammi fyrir fjölda áhorfenda.

Í 1. umferðinni mætast einnig Breiðablik og Grótta. Þetta er fyrsti leikur Seltirninga í efstu deild frá upphafi.

Breiðablik og Grótta skiptu á þjálfurum, ef svo má segja, í haust. Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Breiðabliki eftir að hafa stýrt Gróttu upp um tvær deildir á jafn mörgum árum. Ágúst Gylfason, sem stýrði Breiðabliki í tvö ár, tók við starfi Óskars hjá Gróttu.

Hinir nýliðirnar í Pepsi Max-deildinni, Fjölnir, sækja bikarmeistara Víkings R. heim í 1. umferðinni.

HK tekur á móti FH í Kórnum, KA sækir ÍA heim og Stjarnan og Fylkir mætast í Garðabænum.

Í lokaumferðinni mætir Heimir sínu gamla liði, FH, á Hlíðarenda. Stjarnan tekur á móti Breiðabliki og KR og Grótta mætast á Meistaravöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×