Erlent

Pútín heimsótti Sýrland og hitti Assad

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel fór á með þeim Pútín (t.v.) og Assad (t.h.) þegar þeir hittust í Damaskus í dag.
Vel fór á með þeim Pútín (t.v.) og Assad (t.h.) þegar þeir hittust í Damaskus í dag. Vísir/EPA

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hitti Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, í Damaskus í dag. Þetta er í annað skiptið sem Pútín heimsækir Sýrland frá því að Rússar hófu afskipti sín af borgarastríðinu í landinu til stuðnings Assad.

Reuters-fréttastofan hefur eftir rússnesku fréttaveitunni Interfax að Assad hafi þakkað Pútín fyrir að hafa aðstoðað við að koma á friði í Sýrlandi. Rússneskir hermenn hafa stutt ríkisstjórn hans í borgarastríðinu frá árinu 2015. Forsetarnir tveir hlýddu á skýrslu herforingja um ástand mála í einstökum héruðum landsins, að sögn AP-fréttastofunnar.

Pútín er sagður ætla að heimsækja nokkra staði í Sýrlandi í ferðinni. Síðast heimsótti hann Sýrlandi árið 2017 þegar heilsaði upp á rússneska hermenn í Hmeymim-flugherstöðinni.

Heimsókn Pútín á sér stað í skugga vaxandi spennu í heimshlutanum eftir að Bandaríkjastjórn lét ráða Qasem Soleimani, yfirmann sérsveitar íranska byltingarvarðarins, af dögum í Írak á föstudag. Íranar hafa einnig verið lykilbandamenn Assad Sýrlandsforseta. Bandarískir hermenn eru enn í austanverðu Sýrlandi og hafa þeir verið nefndir sem möguleg skotmark hefndaraðgerða stjórnvalda í Teheran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×