Enski boltinn

Reka fólk út af Old Trafford í kvöld ef það styður Man. City á röngum stöðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það má ekki sjást í Manchester City trefla eða Manchester City treyjur á svæði stuðningsmanna Manchester United í kvöld.
Það má ekki sjást í Manchester City trefla eða Manchester City treyjur á svæði stuðningsmanna Manchester United í kvöld. Getty/Manchester City FC

Það á ekki að taka neina áhættu með öryggi áhorfenda í kvöld þegar Manchester liðin mætast í fyrri leik sínum í undanúrslitaleik enska deildabikarsins.

Manchester United tekur á móti nágrönnum sínum í Manchester City á Old Trafford í kvöld og þar verður hart tekið á þeim stuðningsmönnum Manchester City sem munu lauma sér inn á svæði sem eru áætluð stuðningsfólki Manchester United.

Manchester United hefur gefið út viðvörun að hver sá sem sést styðja Manchester City meðal stuðningsmanna Manchester United, hvort sem það er með köllum eða klæðnaði, verði umsvifalaust vísað á dyr.



Félögin ákváðu í sameiningu og af öryggisástæðum að bjóða upp á færri miða fyrir stuðningsfólk Manchester City í þessum leik en áætlað var.

Það er þess vegna sem menn óttast það að einhverjir stuðningsmenn Manchester City reyni að smygla sér inn á miðum ætluðum stuðningsfólki Manchester United.

Það er búist við því að sjötíu þúsund manns verði á vellinum þótt að sex þúsund færri miðar hafi farið í sölu.

Venjulega á útiliðið að fá tíu prósent af miðum í boði en City fékk þó bara þrjú þúsund miða. Manchester United fær síðan aðeins 2800 miða á seinni leikinn sem er á heimavelli Manchester City 29. janúar næstkomandi.

Þessi stóra ákvörðun var tekin í framhaldi af því sem gerðist á deildarleik liðanna á dögunum. Fred, miðjumaður Manchester United, varð þar meðal annars fyrir kynþáttaníði að hálfu stuðningsmanns Manchester City.

Manchester United mun kalla til fleiri lögreglumenn, fleiri öryggisverði og fleira starfsfólk í kvöld og þá erum við að tala bæði inn á vellinum sem og utan hans.

Leikur Manchester United og Manchester City á Old Trafford hefst klukkan 20.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×