Enski boltinn

Arteta öskraði á leikmenn Arsenal í hálfleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikel Arteta öskraði ekki bara á sína leikmenn heldur einnig á dómarann eins og sjá má hér fyrir ofan.
Mikel Arteta öskraði ekki bara á sína leikmenn heldur einnig á dómarann eins og sjá má hér fyrir ofan. Getty/Julian Finney

Mikel Arteta tókst að vekja sína menn í hálfleik í bikarsigrinum á Leeds United í gærkvöldi.

Leeds United var miklu betra liðið í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að skora þrátt fyrir að hafa skapað fjölda færa í hálfleiknum.

Í stað þess náði Arsenal að laga sinn leik verulega og Reiss Nelson skoraði síðan eina mark leiksins á 55. mínútu.

Arsenal liðið var jafngott í seinni hálfleik og það var lélegt í þeim fyrri. Leikmenn liðsins töluðu um hálfleiksræðu knattspyrnustjórans Mikel Arteta eftir leikinn.



Arsenal markvörðurinn Emiliano Martinez sagði að Mikel Arteta hafi verið mjög reiður í hálfleik.

„Stjórinn öskraði mikið. Hann var ekki ánægður því við vissum að þeir myndu spila svona og við bárum ekki virðingu fyrir því sem hann sagði fyrir leikinn,“ sagði Alexandre Lacazette við BBC One.

Arsenal átti fullt af færum í seinni hálfleiknum þar á meðal skaut umræddur Alexandre Lacazette í slána úr aukaspyrnu.

„Núna er ég virkilega ánægður en við sáum þarna tvö mismunandi lið. Liðið sem spilaði fyrstu þrjátíu mínútur leiksins og svo liðið eftir það,“ sagði Mikel Arteta við breska ríkisútvarpið eftir leikinn.



„Ég reyndi að segja þeim hvað þeir máttu búast við og eftir 32 mínútur höfðum við bara unnið eina tæklingu. Við breyttum hugarfarinu, lönguninni og skipulaginu í hálfleik og við vorum fyrir vikið allt annað lið,“ sagði Mikel Arteta.

„Stundum þurfa menn að finna það á eigin skinni hversu erfitt þetta er. Ég hef horft á fullt af leikjum með Leeds liðinu og þeir hafa látið öll lið finna fyrir sér. Það var gott fyrir mína menn að læra af þessu og þjást aðeins inn á vellinum,“ sagði Mikel Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×