Enski boltinn

Halda því fram að Ancelotti sé tilbúinn að hlusta á tilboð í Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Síðustu leikir hafa verið erfiðir fyrir Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína.
Síðustu leikir hafa verið erfiðir fyrir Gylfa Þór Sigurðsson sem hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína. Getty/Emma Simpson

Framtíð Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton er til umræðu í enskum fjölmiðlum eftir tvo dapra leiki í röð hjá íslenska landsliðsmanninum og svo gæti verið að hann eigi ekki framtíð hjá félaginu.

Vefsíðan Football Insider heldur því fram að Carlo Ancelotti, sem tók við liði Everton á dögunum, ætli að hlusta eftir tilboðum í Gylfa Þór sem hefur ekki náð að fylgja eftir góðu tímabili í fyrra.

Everton keypti Gylfa á 45 milljónir punda frá Swansea City haustið 2017. Hann var svolítið lengi í gang en átti mjög gott annað tímabil á Goodison Park.



Gylfi er nýorðinn þrítugur og á þessari leiktíð er hann bara með tvö mörk og eina stoðsendingu í 23 leikjum í öllum keppnum eftir að hafa verið með 13 mörk og 6 stoðsendingar í 38 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Gylfi hefur byrjað alla fjóra leikina undir stjórn Carlo Ancelotti en hefur verið tekinn af velli í tveimur síðustu leikjum þar af í 1-0 tapi á móti varaliði Liverpool í enska bikarnum um síðustu helgi.

Heimildarmaður Football Insider hjá Everton segir að Ancelotti sé tilbúinn að selja Gylfa geti hann fengið fyrir hann stóran hluta af kaupverðinu sem Everton greiddi velska liðinu fyrir tveimur og hálfu ári síðan.



Ítalski stjórinn gæti þá fengið pening til að kaupa nýja leikmenn inn í liðið en ef marka má úrslit síðustu leikja þá þarf Everton svo sannarlega á nýju blóði að halda.

Blaðamaður Football Insider er þó á því að það sé líklegra að Gylfi verði seldur í sumar frekar en í þessum janúarglugga þó svo að Everton sé að leita sér að nýjum leikmönnum núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×