Handbolti

Guðmundur: Tókum djarfa ákvörðun og hún skilaði sér

Anton Ingi Leifsson skrifar

„Ég er gríðarlega stoltur. Við vorum búnir að tala vel um þetta og við ætluðum að koma til baka og svara eftir þessi tvö töp. Við gerðum það á mjög eftirminnilegan hátt,“ sagði Guðmundur í leikslok.

„Vörnin var þétt. Við unnum marga bolta, markvarslan var góð og við fengum hraðaupphlaup. Sóknarleikurinn vel spilaður allan leikinn. Þrjú fjögur óþarfa skot en að öðru leyti er ég sáttur við þá.“

Portúgalar spila sjö á móti sex í sóknarleiknum og Ísland náði að leysa það með miklum glæsibrag.

„Við tókum djarfa ákvörðun að spila varnarleikinn með 5+1 á móti þeim sjö. Við undirbjuggum þetta á töflufundi og uppskárum flotta vörn í að stöðva þeirra sóknir. Þetta var einn af nokkrum lyklum að vinna leikinn. Ég er mjög ánægður með það.“

Hann segir að liðið hafi ekki fengið mikinn tíma til þess að undirbúa þennan varnarleik en hann hafi gengið upp.

„Við ákváðum að keyra á þessa lausn. Við undirbjuggum þetta vel. Við erum eina liðið sem hefur leyst þetta svona vel. Þessa yfirtölu þeirra sem þeir eru frábærir í. Við vildum taka þá vel út úr þægindarammanum og vildum ögra þeim aðeins. Það gekk fullkomlega upp.“

Sóknarleikurinn gekk lengi vel eins og smurð vél en Guðmundur hefur imprað á því að liðið megi ekki við neinum klaufalegum mistökum sóknarlega.

„Við töluðum um það fyrir leikinn að við þurfum þessa yfirvegun. Sama hvað staðan er; hvort við séum undir, yfir eða jafnt, þá ætluðum við að vera yfirvegaðir. Bera virðingu fyrir boltanum.“

„Við höfum lent í því á stuttum og löngum köflum að detta niður og það er refsað fyrir allt hérna. Gæðin í hinum liðunum er svo mikil og það er refsað fyrir allt,“ sagði Guðmundur að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×