Enski boltinn

Nítján ára gamall að fá tækifæri í aðalliði Man Utd og minnir stjórann á Gary Neville

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon Williams er búinn að skapa sér nafn hjá Manchester United þar sem hann er alinn upp.
Brandon Williams er búinn að skapa sér nafn hjá Manchester United þar sem hann er alinn upp. Getty/ Alex Livesey

Brandon Williams hefur stimplað sig inn í aðallið Manchester United að undanförnu og þessi ungi strákur hefur fengið alvöru tækifæri hjá knattspyrnustjóranum Ole Gunnar Solskjær.

Solskjær talaði um hinn nítján ára gamla Brandon Williams á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti Liverpool á Anfield á sunnudaginn.

Brandon Williams er fæddur eftir þrennu tímabili fræga (fæddur í september 2000) og er uppalinn hjá félaginu. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Manchester United í deildabikarleik á móti Rochdale í september 2019.



Fyrsti leikurinn í byrjunarliðinu var síðan á móti hollenska liðinu AZ Alkmaar í Evrópudeildinni en sá leikur fór fram 3. október.

Solskjær var ánægður með það sem hann sá og aðeins tveimur vikum síðar var strákurinn búinn að skrifa undir nýjan samning við Manchester United sem nær til júní 2022.

Fyrsti leikur Brandon Williams í ensku úrvalsdeildinni kom í fyrri leiknum á móti Liverpool í október þegar hann kom inn á sem varamaður undir lok leiksins.

Nú lítur út fyrir að Brandon Williams sé búinn að vinna sér fast sæti í vinstri bakvarðarstöðunni. Hann hefur byrjað inn á í fjórum af síðustu fimm deildar- eða bikarleikjum liðsins.

Brandon Williams var þekktur fyrir að vera með mikið skap með yngri liðum Manchester United en Solskjær vill ekki meina að hann þurfi að segja stráknum að passa upp á skapið í leiknum á móti Liverpool á sunnudaginn.



Leikirnir á móti Liverpool skipta sanna Manchester United menn gríðarlega miklu máli en Norðmaðurinn hefur ekki áhyggjur af þessum nítján ára strák.

„Lítur það svo út að ég þurfi eitthvað að tala við hann. Hann hefur tæklað allar áskoranirnar sem við höfum boðið honum upp á hingað til. Hann minnir mig svo mikið á Gary Neville þegar kemur að hugarfarinu,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

Gary Neville var líka uppalinn Manchester United maður og lék með félaginu í næstum því tvo áratugi. Svo harður stuðningsmaður United var hann að þegar hann var ekki að spila þó fór hann upp í stúku og studdi liðið með hörðustu stuðningsmönnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×