Mokstur Flateyrarvegar gengur vel og eru veðuraðstæður með besta móti. Gert er ráð fyrir að mokstri inn á Flateyri ljúki einhvern tímann á fimmta tímanum í dag. Þetta segir Guðmundur Björgvinsson hjá Vegagerðinni í samtali við fréttastofu.
Mokstur hófst rétt um klukkan eitt í dag en ástandið er komið í stöðugt horf og ekki lengur snjóflóðahætta að sögn Guðmundar. Hann segir að moka þurfi í gegnum þrjú flóð sem fallið hafa yfir veginn til að komast inn á Flateyri. Notast er við eina stóra vél með hjólaskóflu til að ryðja veginn en ekki er hægt að notast við snjóblásara til að komast í gegnum snjóflóðin þar sem grjót og ruðningur gæti hafa borist niður með flóðinu og því þarf að nýta réttu tækin.
Þegar fréttastofa náði tali af Guðmundi upp úr klukkan tvö var búið að moka í gegnum fyrsta flóðið og moksturstæki komin langleiðina í gegnum annað flóðið.
Innlent