„Það er í raun ekki mikið að segja. Hann lá þarna við bryggjuna og það fór allt,“ segir Einar Guðbjartsson útgerðarmaður og einn eigenda bátsins Blossa ÍS-225 sem var í hópi sex báta sem sukku í Flateyrarhöfn í gærkvöldi.
Einar segist hafa farið niður á höfn í gærkvöldi, eftir að flóðin féllu, og þá séð endann af bátnum standa upp úr sjónum. „Það er svo mikið af raftækjum og kerfum þarna, þannig að þetta er líklega meira eða minna allt ónýtt. Maður veit ekki hvernig er með skrokkinn, hvernig hann er. En það kemur líklega ekki í ljós fyrr en eftir einhverja daga,“ segir Einar.
Einar á bátinn Blossa ásamt Guðrúnu Pálsdóttur, eiginkonu sinni, og syni þeirra sem jafnframt er skipstjóri. Fyrirtækið heitir Hlunnar og segir Einar að þar starfi sex, sjö manns. Fyrirtækið gerði út tvo báta, en annar þeirra var seldur síðasta haust.
Einar segir að hann hafi fengið sms í röðum í gærkvöldi – sjálfvirkar tilkynningar úr bátnum um að eldur væri í vélarrúmi og fleiri boð um að ekki væri allt með felldu. „Ég fór þá niður að höfn og þá var björgunarsveitin á staðnum. […] Það var skelfilegt að upplifa þetta.“
Hann segist ekki vera búinn að meta framhaldið. „Nei, við verðum bara bíða með að ná bátnum upp og taka stöðuna í framhaldi af því.“
Einar segir bæjarbúa vera í sjokki vegna snjóflóðanna. „Það létti samt mikið yfir mér þegar fréttir bárust af því að tekist hafi að bjarga unglingsstúlkunni og að ekkert manntjón hafi orðið.“
Blossi er tólf tonna krókaaflamarksbátur, smíðaður árið 2014.