Vegir á Vestfjörðum erum ýmist lokaðir eða ófærir þennan morguninn. Vegfarendur eru eindregið hvattir til að virða þær lokunarráðstafanir sem gripið hefur verið til.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er Skutulsfjarðarbraut lokuð og verður staðan endurmetin klukkan átta. Vegurinn um Eyrarhlíð er að sama skapi lokaður og verður athugað með hann klukkan tíu. Mannaðir voru lokunarpóstar á öllum helstu stöðum.
Vegir við Súðavíkurhlíð, Kirkjubólshlíð og Flateyrarveg eru auk þess lokaðir vegna snjóflóðahættu en ekki liggur fyrir hvenær þær lokanir verða endurmetnar. Á veg Vegagerðarinnar segir einnig að vegirnir um Þröskulda og Steingrímsfjarðarheiði séu lokaðir.
Vestfirðir: Skutulsfjarðarbraut er lokuð og verður athuguð um kl. 8:00. Vegurinn um Eyrarhlíð er lokaður og verður ath. kl.10:00. Flestar leiðir eru ófærar þó er fært á Hálfdán og Mikladal. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 15, 2020
Annar staðar á Vestfjörðum er svo gott sem ófært, að frátöldum Hálfdán og Mikladal.
Að sama skapi býður veðrið ekki upp á flugsamgöngur þessa stundina. Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir Vestfirði og er gert ráð fyrir að veður gengi niður um hádegi. Þá mun sérfræðingum gefast færi á að meta umfang snjóflóðanna þriggja sem féllu á Flateyri og norðanverðum Súgandafirði. Veðurstofan mun ekki endurmeta ofanflóðaspá fyrr en í birtingu.
Veðurspá næsta sólarhrings á norðanverðum Vestfjörðum og völdum fjörðum.
Dregur hægt úr vindi um og eftir hádegi, 10-15 m/s undir kvöld (miðvikudagskvöld) á láglendi jafnt sem í fjallahæð. Samhliða minnkandi vind dregur úr ofankomu og verður orðið úrkomulítið í kvöld, miðvikudagskvöld. Aðfaranótt fimmtudags verður hæg austlæg eða breytileg átt, skýjað og úrkomulítið. Það hlýnar heldur er lægir og hiti verður um og jafnvel aðeins yfir frostmarki aðfaranótt fimmtudags og á fimmtudag.