Sport

Varð að hætta keppni á opna ástralska vegna hóstakasts

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dalila Jakupovic var ekki sátt með að þurfa að keppa í þessum slæmu loftgæðum enda komu áhrifin af því í ljós.
Dalila Jakupovic var ekki sátt með að þurfa að keppa í þessum slæmu loftgæðum enda komu áhrifin af því í ljós. Getty/Julian Finney

Gróðureldarnir í Ástralíu eru farnir að hafa bein áhrif á opna ástralska tennismótið en tenniskona varð að hætta keppni í undankeppni þessa virta risamóts.

Slóvenska tenniskonan Dalila Jakupovic þurfti hjálp af velli eftir að hún hætti keppni í miðjum leik sínum á móti Stefanie Vogele frá Sviss.

Gera þurfti eins klukkutíma hlé á keppninni vegna slæmra loftgæða. Leikur Dalilu fór fram eftir það hlé.



Dalila Jakupovic fékk þá mikið hóstakast undir lok annars setts. „Þetta var mjög slæmt og ég hef aldrei upplifað annað eins áður. Ég varð mjög hrædd um að það myndi líða yfir mig af því ég gat ekki gengið lengur,“ sagði Dalila Jakupovic eftir leikinn.

Dalila var ekki sátt með þá ákvörðun mótshaldara að halda keppni áfram eftir hlé því augljóst var að hennar mati að loftgæðin voru ekki nógu góð.

„Þetta var ekki sanngjarnt því þetta var ekki heilsusamlegt fyrir okkur. Það kom mér því á óvart. Ég hélt að við myndum ekki keppa í dag en við ráðum víst engu um það,“ sagði Dalila Jakupovic.

Fólki í Melbourne var ráðlagt að halda sér inni í dag og að hleypa gæludýrum ekki út.

Að minnsta kosti 28 manns hafa látist í gróðureldunum í Ástralíu og yfir hundrað þúsund ferkílómetrar lands hafa brunnið síðan þeir hófust 1. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×