Iðnaðarhúsnæði á Ísafirði var rýmt um klukkan fjögur í dag vegna snjóflóðahættu. Húsnæðið var á reit níu sem var rýmdur í samræmi við rýmingaráætlun fyrir Ísafjörð. Engin íbúðarhús eru á reitnum, er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Þar segir að búast megi við því að snjóflóð falli í því veðri sem nú er á svæðinu og geti þau orðið nokkuð stór. Talið er að snjóflóð hafi fallið ofan í lón Reiðhjallavirkjunar í Syðridal inn af Bolungarvík klukkan 12:32 í dag en Orkubú Vestfjarða tilkynnti að þá hafi hækkað í lóninu um fjörutíu sentímetra. Er það þekkt afleiðing snjóflóða úr hlíðinni ofan lónsins.
Ekki er vitað um önnur snjóflóð á svæðinu síðasta sólarhringinn að sögn Veðurstofunnar en flestir vegir hafa verið lokaðir og lítið skyggni er til fjalla og því er ólíklegt að fréttist af flóðum.
Ofanflóðavakt Veðurstofunnar virkjaði í gær óvissustig vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.
„Fylgst er með snjóflóðaaðstæðum ofan við byggð, en búið er að verja þau svæði í þéttbýli á norðanverðum Vestfjörðum þar sem hætta myndi skapast fyrst við þessar aðstæður,“ segir að lokum í færslu Veðurstofunnar.
Rýmdu hús á Ísafirði vegna snjóflóðahættu
Tengdar fréttir
Örfá hús á norðanverðum Vestfjörðum í hættu vegna snjóflóða
Á Vestfjörðum hefur snjóað talsvert undanfarna daga en norðaustan hríð er spáð alveg fram á miðvikudag. Mestur verður vindurinn og ofankoman í dag og fram á þriðjudag. Fyrir er talsvert fannfergi í fjöllum sem er lagskipt eftir mismunandi vindáttir og hitabreytingar.