Enski boltinn

London er ekki uppáhaldsstaður Mohamed Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er mikill markaskorari nema kannski þegar hann spilar í London.
Mohamed Salah er mikill markaskorari nema kannski þegar hann spilar í London. Getty/Daniel Chesterton

Liverpool mætir á Ólympíuleikvanginn í London í kvöld og mætir þar heimamönnum í West Ham. Ein aðalstjarna Liverpool liðsins á ekki alltof góðar minningar frá London.

Mohamed Salah hefur raðað inn mörkum síðustu tímabil sín með Liverpool og hefur verið markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil.

Mohamed Salah skoraði 32 mörk tímabilið 2017-18, 22 mörk í fyrra og er kominn með 11 mörk í 20 leikjum á þessu tímabili. Alls gera þetta 65 deildarmörk í 94 leikjum.

Það er hins vegar á einum stað á Englandi þar sem Egyptinn finnur ekki marknetið.





Mohamed Salah hefur ekki náð að skora í síðustu níu leikjum sínum í London og það er ekki af því að það eru ekki nógu margir leikir í boði.

Hans síðast mark í höfuðborginni kom á móti Crystal Palace 31. mars 2018 eða fyrir 669 dögum síðan.

Síðan þá hefur hann mætt Chelsea þrisvar og Tottenham tvisvar án þess að skora auk þess að fara líka markalaus í gegnum leiki á móti Crystal Palace, Arsenal, West Ham og Fulham.

Því má heldur ekki gleyma að Mohamed Salah lék á sínum tíma með Chelsea eða tímabilið 2013-14 og fyrri hluta 2014-15 tímabilsins. Salah skoraði aðeins 2 mörk í 19 leikjum í öllum keppnum fyrir Chelsea.

Nú er að sjá hvort að Mohamed Salah takist að enda markaþurrð sína í London í kvöld þegar Liverpool heimsækir West Ham. Með sigri nær Liverpool liðið nítjánd stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×