Enski boltinn

„Hann er eins og Terminator eða Sauron með hringinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Adama Traore hefur verið á miklu flugi það sem af er leiktíð.
Adama Traore hefur verið á miklu flugi það sem af er leiktíð.

Svona lýsa Tim Spiers og James Pearce, blaðamann The Athletic, hinu eldfljóta og nautsterka afmælisbarni gærdagsins, Adama Traore. Þessi magnaði leikmaður fagnaði 24 ára afmæli sínu í gær.

Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, fór fögrum orðum um Traore eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni nýverið. Liverpool vann þann leik, líkt og nær alla aðra leiki sína á þessari leiktíð, en Traore var stórkostlegur í liði Wolves.

Andy Robertson, vinstri bakvörður Liverpool, fékk gult spjald fyrir að brjóta á Traore í leiknum og varð þar með 28. leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni sem fær spjald fyrir að brjóta á þessum magnaða vængmanni Wolves.

Þeir Spiers og Pearce fjalla þó ekki um Traore út frá sínum skoðunum né Klopp heldur heyrðu þeir í leikmönnum deildarinnar og ræddu við þá um það hvernig væri að spila gegn þessu mennska fjalli sem Traore er orðinn. Fyrsti maður sem þeir spurðu var Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool, en sá er enginn smá smíði sjálfur.

„Hann er með hraða. Hann er mögulega fljótastu leikmaður deildarinnar,“ segir Hollendingurinn áður en hann heldur áfram.

„Það er augljóslega mikill styrkur fyrir Wolves að hafa hann þarna úti á vængnum. Þú þarft að ákveða þig hvort þú ætlir að fara nálægt honum eða leyfa honum að hlaupa af stað.“

Liverpool vörnin hefur verið einkar öflug það sem af er tímabili og gefið fá færi á sér. Raunar hefur liðið aðeins fengið á sig 15 mörk til þessa í 23 leikjum, þar af aðeins eitt í síðustu átta. Wolves náði hins vegar að skapa sér þónokkur færi í leik liðanna í miðri viku, flest öll þökk sé útsjónarsemi Traore.

Spiers og Pearce heyrðu einnig í Jarlath O‘Rourke, leikmanni Norður-írska liðsins Crusaders en þeir mættu Wolves í undankeppni Evrópudeildarinnar. O´Rourke fékk það hlutverk að dekka Traore í leiknum.

„Ógnvekjandi,“ voru orð O'Rourke er hann var spurður út í hvernig tilfinningin hefði verið þegar það var ljóst að Adama Traore væri hans megin í uppstillingu Wolves það kvöld. Norður-Írinn komst ágætlega frá rimmunni en Wolves fór samt sem áður örugglega áfram. O'Rourke fékk þó ágætis minjagrip en hann fékk treyju Traore eftir síðari leikinn. Sú er nú í ramma upp á vegg.

Þá tjáði Jetro Williams, varnarmaður Newcastle United, sig um það hvernig væri að spila gegn Traore fyrr í þessum mánuði. Hann líkti honum einfaldlega við Cristiano Ronaldo.

„Hann er þekktur sem fljótasti maðurinn í fótboltanum og ég get staðfest það,“ sagði Williams um Traore. Hann nefndi svo Ronaldo en hann lék gegn honum er Portúgal og Holland mættust í Þjóðadeildinni. Líkamlegir yfirburðir ásamt ógnvekjandi hraða var það sem Williams taldi vera líkt með þeim félögum.

Það er ljóst að ef Traore heldur framgöngu sinni áfram þá verður hann kominn í mun stærra lið en Wolves áður en langt er um liðið.


Tengdar fréttir

Endurkomusigur Úlfanna gegn City

Möguleikar Manchester City á að ná Liverpool á toppi ensku úrvalsdeildarinnar minnkuðu í kvöld þegar City tapaði fyrir Úlfunum á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×