Handbolti

Aron: Erfitt að gíra sig upp í sjöunda leikinn á tólf dögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Aron Pálmarsson var svekktur eftir tap Íslands fyrir Svíþjóð, 25-32, í lokaleik liðsins á EM 2020.

„Við reyndum að gíra okkur. Það var erfitt, andlega og líkamlega, sérstaklega þegar það var ljóst að við gætum ekki náð Ólympíusæti,“ sagði Aron í samtali við Vísi eftir leik.

„Það var stemmning í liðinu fyrir leik en það var erfitt að gíra sig upp í sjöunda leikinn á tólf dögum,“ sagði Aron og bætti því við það hafi verið ansi lítið eftir á tankinum hjá íslenska liðinu í kvöld.

Þegar hann lítur til baka á mótið segir hann að seinni hálfleikurinn gegn Ungverjalandi svíði sárast.

„Þar fór allt í skrúfuna. Hann svíður mest. Leikurinn gegn Slóveníu var lélegur en þeir eru að fara í undanúrslit. Við erum stórasta land í heimi og það er frábært hugarfar,“ sagði Aron.

„Við komumst upp úr riðlinum og það var fullt af jákvæðum hlutum á þessu móti. En þetta er svolítið súrt.“

Aron átti afar misjafna leiki á Evrópumótinu.

„Frammistaðan gegn Ungverjum í seinni hálfleik var skelfileg. Ég var lélegur gegn Slóveníu. Það er erfitt að taka þennan leik með. Danmörk, Rússland og Portúgal voru fínir leikir. Ég get ekki dæmt um Noreg þar sem ég spilaði bara tíu mínútur,“ sagði Aron að endingu.


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: Léttir fyrir Ikea

Ísland tapaði í lokaleik sínum á EM gegn Svíum í kvöld. Svíar höfðu yfirhöndina allan leikinn og lítið um jákvæðni hjá íslensku stuðningsmönnunum á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×