Lífið

Dorrit virðist lýsa yfir stuðningi við Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Myndin sem Dorrit birti af sér og Ivönku Trump, dóttur Bandaríkjaforseta, í kvöld.
Myndin sem Dorrit birti af sér og Ivönku Trump, dóttur Bandaríkjaforseta, í kvöld. Instagram/skjáskot

Færsla Dorritar Moussaieff, fyrrverandi forsetafrúar, á samfélagsmiðlinum Instagram virðist benda til þess að hún styðji Donald Trump til endurkjörs í forsetakosningum í Bandaríkjunum á þessu ári. Með mynd sem hún birtir af sjálfri sér með Ivönku Trump virðist hún einnig gefa í skyn að dóttir forsetans ætti svo að taka við.

Myndin af Trump og Dorrit var tekin á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss þar sem Trump forseti hélt ræðu í dag. Undir myndinni lofar Dorrit ræðuna og bandarískar hagtölur sem forsetinn stærði sig af.

„Fjögur ár til viðbótar!“ skrifar forsetafrúin fyrrverandi og notar þar algengt slagorð stuðningsfólks sitjandi kjörinna fulltrúa vestanhafs.

Eftir að þau fjögur ár skrifar Dorrit að Bandaríkin þurfi á konu að halda. Hvort þar eigi hún við Ivönku Trump sjálfa er ekki ljóst. Ivanka Trump hefur starfað sem ráðgjafi föður síns í Hvíta húsinu og komið fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á erlendri grundu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dorrit birtir mynd af þeim Ivönku Trump saman. Það gerði fyrrverandi forsetafrúin einnig í mars í fyrra á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Forsetakosningar verða haldnar í Bandaríkjunum í nóvember.

Skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.