Innlent

Píratar hafa "áberandi minnstan áhuga“ á EM

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson í leik Íslendinga gegn Ungverjum í síðustu viku.
Guðjón Valur Sigurðsson í leik Íslendinga gegn Ungverjum í síðustu viku. vísir/epa

Íslendingar eru nokkuð áhugasamir um gengi íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Evrópumeistaramótinu sem nú stendur yfir í Svíþjóð en ríflega helmingur hefur mikinn áhuga á keppninni. Þá hafa kjósendur Pírata áberandi minnstan áhuga á mótinu en Píratar, sem og Framsóknarmenn, eru líklegri til að spá Íslendingum sigri en kjósendur annarra flokka.

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Um þrír af hverjum tíu sem svöruðu könnuninni hafa lítinn áhuga á EM og nær 16 prósent hafa hvorki mikinn né lítinn áhuga. Þá er fólk almennt líklegra að hafa mikinn áhuga eftir því sem það er eldra en þó er fólk milli fertugs og fimmtugs líklegra en aðrir aldurshópar til að hafa „gífurlegan“ áhuga.

Fólk hefur jafnframt mismikinn áhuga á mótinu eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag en þeir sem kysu Pírata hafa „áberandi minnstan áhuga á því“, að því er segir í niðurstöðum þjóðarpúlsins. 33 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni og hyggjast kjósa Pírata hafa engan áhuga á EM.

Þá telja flestir þeirra sem tóku afstöðu að Norðmenn muni standa uppi sem sigurvegarar, eða um þriðjungur. Næstsigurstranglegastir teljast Spánverjar og nær átta prósent spá Íslendingum sigri. Að meðaltali telja landsmenn að liðið hafni í 7. sæti á mótinu.

Þjóðarpúlsinn má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×