Viðskipti erlent

IKEA lokar öllum verslunum sínum á meginlandi Kína

Atli Ísleifsson skrifar
Vöruhús IKEA í Zhengzhou í Henan-héraði.
Vöruhús IKEA í Zhengzhou í Henan-héraði. Getty

Sænski verslunarrisinn IKEA hefur ákveðið að loka öllum verslunum sínum á meginlandi Kína vegna útbreiðslu Wuhan-veirunnar.

IKEA greindi frá því í gær að til stæði að loka um helming verslana sinna í Kína, en í morgun var greint að þeim öllum yrði lokað. Netverslun fyrirtækisins yrði þó áfram opin. IKEA starfrækir um þrjátíu verslanir í landinu.

Tala látinna vegna veirunnar heldur áfram að hækka og stendur nú í 170 manns. Þá hefur veiran nú breiðst út um allt meginland Kína eftir að stjórnvöld staðfestu að eitt tilfelli hefði komið upp í Tíbet.

Kínversk yfirvöld og ýmis stórfyrirtæki hafa gripið til ráðstafana til að hefta útbreiðslu veirunnar. Þannig hefur fjölda borga verið lokað og takmarkanir verið settar á lestar- og ferjusamgöngur og fleira.

Þá var tilkynnt fyrr í vikunni að alþjóðleg flugfélög hafi fellt niður ferðir til Kína og má nefna að bandaríska kaffihúsakeðjan Starbucks hafi ákveðið að loka tímabundið um tvö þúsund af kaffihúsum sínum, eða um helmingi þeirra Starbucks-kaffihúsa sem starfrækt eru í Kína.


Tengdar fréttir

Íslendingar í Peking upplifa sig í stofufangelsi

Göturnar eru hálfauðar í Peking þessa dagana. Tæplega hundrað hafa greinst með kórónaveiruna þar. Íslendingar sem búa í borginni upplifa að þeir séu í stofufangelsi enda sé allt lokað í borginni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×