Aron Jóhannsson, leikmaður Hammarby, íhugaði að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla í fyrra. En með hjálp sálfræðinga komst hann aftur á beinu brautina.
Aron var á mála hjá Werder Bremen í fjögur ár en lék sáralítið með þýska liðinu vegna meiðsla. Í viðtali við Fotbollskanalen segir Aron að sér hafi liðið illa á þessum tíma og hafi gert mistök með því að leita sér ekki hjálpar fyrr en hann gerði.
„Við vorum með sálfræðinga í Bremen og þegar þeir spurðu mig hvernig ég hefði það sagðist ég hafa það gott og vildi ekki tala um þetta. Ég vildi ekki sýna veikleikamerki þegar ég þurfti bara hjálp. Það var rangt viðhorf,“ sagði Aron.

„Með tímanum hef ég lært að það er aldrei of seint að biðja um hjálp. Í hvert skipti sem ég meiddist á ökkla leitaði ég til sjúkraþjálfara. En þegar mér leið illa leitaði ég mér ekki hjálp heldur byrgði allt inni. Á endanum var það of mikið. En sem betur fer á ég góða og sterka kærustu sem sagði mér að tala við einhvern.“
Hann segist hafa leitað til sálfræðinga, bæði í Svíþjóð og á Íslandi, eftir að hann gekk í raðir Hammarby síðasta sumar. Og hann segir að það hafi gert sér gott.
„Ég hugsaði um að hætta bæði fyrir og eftir að ég kom til Hammarby. Þetta gekk vel til að byrja með en svo fann ég aftur fyrir sársauka í ökklanum og hugsaði hvort þetta væri ekki komið gott. Þetta var erfitt bæði andlega og líkamlega en ég byrjaði að tala við fólk og það hjálpaði mér mikið,“ sagði Aron.

Hann segist enn þurfa að vinna í andlegri heilsu þótt honum líði betur í dag.
„Það er ekki hægt að setja plástur á þetta og svo er þetta farið að eilífu. Þetta er ekki jafn stórt vandamál og þetta var en það er samt gott fyrir mig að tala um þetta og ég geri það enn,“ sagði Aron.
Viðtalið við Aron má lesa í heild sinni með því að smella hér.