Þrír háttsettir framleiðendur spjallþáttar Ellen DeGeneres hafa verið reknir í kjölfar ásakana um ósæmilega hegðun og kynferðislega áreitni.
Ellen greindi sjálf frá breytingunum á fjarfundi starfsmanna í gær auk þess að innri rannsókn á ásökunum um eitrað starfsumhverfi sé nú þegar hafin.
Spjallþáttadrottningin sagðist harma hvernig mál hafi þróast, að því er fram kemur í Hollywood Reporter.
Síðustu mánuði hefur mikið verið fjallað um ásakanir starfsmanna þáttarins um einelti og ógnarstjórn í sjónvarpsverinu þar sem framleiðslan fer fram. Þannig sagði Buzzfeed News frá því fyrr á árinu að fyrrverandi starfsmenn hafi þurft að þola kynþáttafordóma við framleiðslu þáttanna.
Talsmaður Warner Brothers hefur staðfest að aðalframleiðendurnir Ed Glavin og Kevin Leman, auk aðstoðarframleiðandans Jonathan Norman séu nú hættir. Í fyrri yfirlýsingum frá þeim Glavin, Leman og Norman hafna þeir ásökunum um að hafa áreitt starfsfólk kynferðislega.
tWitch aðstoðarframleiðandi
David McGuire, varaforseti sjónvarpsframleiðsluhluta Warner Brothers, segir að allir séu nú staðráðnir í að breyta vinnustaðamenningunni við framleiðslu þáttanna. Sömuleiðis hefur verið greint frá því að plötusnúður þáttanna, Stephen „tWitch” Boss, hefur verið gerður að aðstoðarframleiðanda.
The Ellen DeGeneres Show hefur unnið til fjölda verðlauna, þar á meðal sextíu Emmy-verðlauna, frá því að fyrsti þátturinn var frumsýndur árið 2003.