Enski boltinn

Manchester United sagt tilbúð að lækka verðið á Pogba um 4,8 milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba hefur lítið sést í Manchester United búningnum að undanförnu.
Paul Pogba hefur lítið sést í Manchester United búningnum að undanförnu. Getty/ James Williamson

Paul Pogba er til sölu og það á hálfgerðu útsöluverði ef marka má fréttir ensku slúðurblaðanna í morgun. Ensku blöðin velta sér áfram upp úr næstu skrefum Manchester United og óvissunni í kringum framtíð Pogba.

Paul Pogba er enn að jafna sig eftir uppskurð á ökkla en fór samt ekki með Manchester United liðinu í æfingabúðirnar til Spánar þar sem liðið undirbýr sig fyrir komandi átök eftir vetrarfríið. Það kemur fram í Daily Star en þeir hjá Sun hafa enn heitari uppslátt af stöðu mála hjá franska miðjumanninum.

Samkvæmt frétt Sun þá hafa Paul Pogba og umboðsmaður hans Mino Raiola fengið grænt ljós á að Pogba yfirgefi félagið fái Manchester United nægan pening fyrir hann.



Manchester United hefði getað selt Paul Pogba síðasta sumar en setti þá 180 milljón punda verðmiða á hann og það voru hvorki Real Madrid né Juventus tilbúin að borga.

Pogba er enn bara 26 ára gamall og ætti að eiga mörg góð ár eftir. Ole Gunnar Solskjær og stjórnin hjá Manchester United eru hins vegar á því samkvæmt fyrrnefndri frétt að nú sér kominn tími á að selja leikmanninn.

Það hefur verið mikið vesen á Pogba síðustu ár og ofan á það hafa bæst langvinn ökklameiðsli sem á endanum kölluðu á aðgerð. Hann hefur því aðeins náð að spila átta leiki fyrir Manchester United á leiktíðinni.

Manchester United keypti hann á sínum tíma á 89 milljónir punda frá Juventus og ætlar ekki að selja hann ódýrt.

Í fréttinni kemur hins vegar fram að nú sé búið að lækka verðmiðann um 30 milljónir punda eða 4,8 milljarða íslenskra króna. Pogba myndi samt kosta 150 milljónir punda sem er svo sem ekkert útsöluverð enda 24,5 milljarðar íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×