Viðskipti innlent

Advania í útrás í Danmörku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Advania er ekki fyrsta íslenska fyrirtækið til að horfa til Danmerkur þegar taka á skrefið út fyrir landsteinana.
Advania er ekki fyrsta íslenska fyrirtækið til að horfa til Danmerkur þegar taka á skrefið út fyrir landsteinana. Advania

Advania hefur keypt danska félagið Kompetera og opnar nú starfstöð í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania sem segist nú geta boðið alhliða þjónustu í upplýsingatækni á öllum Norðurlöndunum.

Kaupin á Kompetera eru liður í að efla starfsemi Advania um öll Norðurlönd. Nú getur fyrirtækið boðið alhliða rekstrarþjónustu í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Finnlandi. Þrjátíu manns starfa hjá Komepetera en verða nú hluti af starfsliði Advania.

„Með starfsemi í Danmörku höfum við náð markmiði okkar um að verða sannkallað norrænt fyrirtæki og nú stefnum við á að byggja ofan á þann 15% innri vöxt sem varð árið 2019. Það er frábært skref fyrir Advania að geta nú boðið upp á alhliða þjónustu á sviði upplýsingatækni á öllum Norðurlöndunum. Ekkert annað félag á þessu sviði getur það. Með kaupum á Kompetera eykst geta og þekking Advania á altækri rekstrar- og skýjaþjónustu til muna og við sjáum mörg tækifæri framundan,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

„Það er hvetjandi innblástur að verða hluti af svo framúrskarandi fyrirtæki sem Advania er. Með okkar nálgun og staðbundnu þekkingu náum við að fylla í lítið en þó mikilvægt skarð á dönskum markaði. Við erum himinlifandi með þetta tækifæri og hlökkum til bjartrar framtíðar saman,“ segir Carstein Weis framkvæmdastjóri Kompetera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×