Strætó boðar nú nýtt, rafrænt greiðslukerfi í anda kerfa sem þekkt eru í almenningssamgöngum stórborga um allan heim. Efnt hefur verið til nafnasamkeppni um greiðslukerfið á vef Strætó.
Í tilkynningu frá Strætó segir að nýja greiðslukerfið muni veita aðgang að Strætó á höfuðborgarsvæðinu og Borgarlínu. Kerfið er að erlendri fyrirmynd, sem Íslendingar þekkja eflaust margir úr utanlandsferðum sínum, þar sem kort eða farsími er settur upp við skanna og fargjaldið þannig greitt í vagninum eða rétt utan við hann.
Dæmi um þekkt greiðslukerfi af þessu tagi í öðrum borgum er Oyster-kortið í London, Rejsekort í Kaupmannahöfn og OV-chipkaart í Amsterdam. Áætlað er að fyrsti fasi greiðslukerfisins taki gildi í lok þessa árs.
Þá eru áætlanir uppi um að kerfið veiti aðgang að fleiri vistvænum samgöngumátum eins og hjólaleigum og deilibílum og jafnvel enn frekari þjónustu í framtíðinni, að því er segir í tilkynningu frá Strætó.
Opnað verður fyrir tillögur í nafnasamkeppnina í dag, miðvikudaginn 12. febrúar og keppnin stendur til 21. febrúar. Sigurvegari keppninnar fær árskort í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og „leyfi til þess að monta sig yfir næstu áratugina,“ að því er segir í tilkynningu.
Nauðsynlegt er að skrá nafn, símanúmer og netfang með tillögum sem sendar eru inn í keppnina. Þá er einnig mælt með því að láta rökstuðning fylgja tillögum. Hægt er að senda tillögur í keppnina hér.