Stuðningsmenn ÍBV, Hvítu riddararnir, hafa beðist afsökunar á hegðun sinni eftir leikinn gegn FH í 8-liða úrslitum Coca Cola-bikars karla á fimmtudaginn. ÍBV vann leikinn, 24-22.
Stuðningsmenn ÍBV mættu meðal annars með myndir af mæðrum leikmanna FH í stúkuna og öskruðu og börðu á hurðina á búningsklefa FH-inga eftir leik. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Við stuðningsmenn ÍBV biðjumst velvirðingar á hegðun okkar eftir síðasta heimaleik (Sumir okkar misstu sig í gleðinni),“ skrifa Hvítu riddararnir á Twitter í dag.
Þeir svara einnig fyrir myndirnar af mæðrum leikmanna FH og segjast ekki hafa meint neitt illt með þeim.
„Varðandi myndirnar af mæðrum leikmanna þá var það í góðu gríni gert og engin meiðyrði skrifuð á þær,“ skrifa Hvítu riddararnir og enda færsluna á orðunum „Áfram gakk.“
Tilkynningi
— Hvítu Riddararnir (@riddararnir) February 11, 2020
Við stuðningsmenn ÍBV biðjumst velvirðingar á hegðun okkar eftir síðasta heimaleik (Sumir okkar misstu sig í gleðinni). Varðandi myndirnar af mæðrum leikmanna þá var það í góðu gríni gert og engin meinyrði skrifuð á þær.
Áfram gakk.#handbolti#olisdeildinpic.twitter.com/66DDcFcTWN
Í samtali við Fréttablaðið staðfesti Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, að málið væri komið inn á borð til sín.