Enski boltinn

Liverpool gæti misst af titlinum ef tímabilið verður flautað af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er svo gott sem búinn að vinna ensku úrvalsdeildina. Hann gæti samt sem áður horft upp á sína verstu martröð verði mótið flautað af vegna kórónuveirunnar.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er svo gott sem búinn að vinna ensku úrvalsdeildina. Hann gæti samt sem áður horft upp á sína verstu martröð verði mótið flautað af vegna kórónuveirunnar. Getty/Visionhaus

Liverpool er með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og á titilinn vísan nema kannski ef kórónuveiran heldur áfram að breiðast út um heiminn.

Blaðamaður Telegraph forvitnaðist um það hvað myndi gerast ef enska úrvalsdeildin yrði að flauta tímabilið af vegna kórónuveirunnar.

Kórónuveiran er farin að hafa mikil áhrif á Ítalíu þar sem leikjum hefur verið frestað og margir leikir um helgina fara fram fyrir luktum dyrum.



Blaðamaður Telegraph komst að því að það er ekkert til um það í reglugerðinni hvað yrði gert með enska meistaratitilinn ef þarf að aflýsa síðustu umferðum tímabilsins vegna faraldursins. Það er því ekkert öruggt að það lið sem á toppnum á þeim tíma fá titilinn afhentan eða verði titlað enskur meistari 2019-2020.

Það eru ennþá engin áhrif frá kórónuveirunni á ensku úrvalsdeildina en miðað við það hversu hratt hún breiðist um Asíu og Evrópu er von á því að það geti breyst snögglega.

Newcastle hefur sem dæmi ráðlagt leikmönnum sínum að heilsa ekki hvorum öðrum á æfingum liðsins.

Knattspyrnusamband Evrópu hefur einnig áhyggjur af Evrópumótinu í sumar og það gæti líka margt breyst til hins verra áður en kemur að umspilsleiknum á Laugardalsvellinum eftir 27 daga.



Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður út í kórónuveiruna á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti Watford.

„Við tökum þessu mjög alvarlega en við getum ekki forðast neitt. Þetta er ekki fótboltavandmál heldur samfélagsvandamál. Vonandi finnur gáfaða fólkið réttu leiðina og réttu svörin,“ sagði Jürgen Klopp.

„Það hefur ekki verið sagt við okkur að við getum ekki spilað leikina og það munum við gera. Við tökum þessu af fyllstu alvöru en við erum ekki að missa okkur af áhyggjum. Það hefur enginn bannað okkur að taka í hendur mótherjanna en við ætlum ekki að þvingað okkar leikmenn til þess. Við getum ekki gert meira en að mæta á staðinn og spila,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×