Enski boltinn

Enska úrvalsdeildin stofnar heiðurshöll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bikarinn sem er keppt er um í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Bikarinn sem er keppt er um í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Getty/Shaun Botterill

Hér eftir eiga bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta möguleika á því að komast í heiðurshöll deildarinnar. Fyrstu meðlimirnir verða teknir inn í mars.

Heiðurshöll eða „Hall of Fame“ eins og við þekkjum hana í enskumælandi löndum verður tekin upp hjá ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í næsta mánuði en þetta kemur fram á heimasíðu ensku úrvalsdeildarinnar.

Heiðurshallirnar eru þekktar frá Bandaríkjunum en Englendingar hafa nú ákveðið að stíga þetta skref hjá sér.

Enska úrvalsdeildin var sett á laggirnar haustið 1992 og umrædd heiðurshöll mun verðlauna mestu afreksmenn sína frá þeim tíma.

Fyrstu tveir meðlimir heiðurshallar ensku úrvalsdeildarinnar verða teknir inn fimmtudaginn 19. mars næstkomandi. Það hefur ekkert verið gefið enn upp hverjir þeir eru.



Innganga í heiðurshöll ensku úrvalsdeildarinnar verður hér eftir mesti heiður sem leikmaður getur fengið frá ensku úrvalsdeildinni.

Þann nítjánda mars næstkomandi verður einnig gefinn út listi með tilnefningum þar sem aðdáendur fá síðan tækifæri til að kjósa einn af þeim inn í heiðurshöllina.

Til að koma til greina í heiðurshöllina þarf leikmaður að vera búinn að leggja skóna á hilluna og aðeins ferill hans í ensku úrvalsdeildinni kemur til greina við mat á hans frammistöðu.

Sá sem er tekinn inn í heiðurshöllina fær stóran persónulegan verðlaunapening þar sem á verður greypt nafn hans og árið sem hann var tekinn inn.

Við Íslendingar eigum Heiðurshöll ÍSÍ en handboltamaðurinn Alfreð Gíslason varð nítjándi meðlimur hennar í desember síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×