Ragnar Bjarnason söngvari er látinn 85 ára að aldri. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi á þriðjudagskvöldið. Ragnar var einn dáðasti söngvari okkar Íslendinga.
Ragnar fæddist í Reykjavík sonur hjónanna Bjarna Böðvarssonar og Láru Magnúsdóttur sem voru bæði mikið tónlistarfólk.
Ragnar hóf ekki tónlistarferil sinn sem söngvari, heldur sem trommuleikari, en þegar hann var 16 ára söng hann ásamt Sigurði Ólafssyni inn á lakkplötu tvö lög sem komu út áratugum seinna á safndiski í tilefni 75 ára afmælis hans.
Ragnar kom víða við á löngum ferli. Hann söng með Hljómsveit Svavars Gests og varð svo söngvari hjá KK sextettinum. Síðar gekk hann til liðs við hljómsveit Björns R. Einarssonar en stoppaði þar stutt og var kominn í Hljómsveit Svavars Gests árið 1960.
Vann lengi vel á Hótel Sögu
Ragnar starfaði erlendis í nokkur ár en gekk svo aftur til liðs við hljómsveit Svavars áður en hann stofnaði sína eigin hljómsveit. Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar spilaði í 19 ár á Hótel Sögu.
Árið 1972 stofnaði Ragnar ásamt fleirum Sumargleðina og fór hún um landið þvert og endilangt árum saman og naut mikilla vinsælda.
Ragnar, sem alla jafna var kallaður Raggi Bjarna, hélt síðustu stórtónleika sína í Hörpu í september. Í þættinum Framkoma á Stöð 2 var Ragga Bjarna fylgt eftir í undirbúningi sínum fyrir stórtónleika sem hann stóð fyrir í byrjun mars á síðasta ári og fékk sjónvarpsmaðurinn Fannar Sveinsson að fylgjast með þessari goðsögn og hvernig tónleikadagurinn þróaðist hjá söngvaranum.
Hér að neðan má sjá Ragga Bjarna undirbúa sig fyrir tónleikana í Hörpu.