Erlent

Ísraelar gerðu loftárásir á Gasa og í Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldur blossar upp í loftárás Ísraelshers á Gasaströndina í nótt.
Eldur blossar upp í loftárás Ísraelshers á Gasaströndina í nótt. Vísir/EPA

Fjórir Palestínumenn eru sagðir hafa særst þegar ísraelski herinn gerði loftárásir á Gasaströndina í nótt. Aðgerðir Ísraela voru svar við um tuttugu eldflaugum sem var skotið frá Gasa á suðurhluta Ísraels í gær. Loftárásir voru einnig gerðar í Sýrlandi.

Árásir Ísraela beindust að skæruliðahópnum Palestínsk íslamskt heilagt stríð (PIJ) á Gasa og í Sýrlandi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Samtökin segja að tveir vígamenn þeirra hafi fallið í Sýrlandi og hótuðu að hefna þeirra. Heilbrigðisráðuneyti Gasa segir að fjórir hafi særst þar.

Sex eldflaugum til viðbótar var skotið inn í Ísrael í dag en fimm þeirra voru stöðvaðar á lofti. Engar fréttir hafa borist af mannskaða. Eldflaugarnar í gær ollu eignartjóni.

Skærurnar hófust á sunnudagsmorgun þegar Ísraelsher sagðist hafa fellt vígamann PIJ nærri landamæragirðingu við Gasaströndina. Hann hafi við annan mann reynt að koma fyrir sprengju við girðinguna. Myndband af jarðýtu Ísraelsher skófla upp líki mannsins fór víða um samfélagsmiðla og olli reiði á meðal Palestínumanna sem kröfðust sumir hefnda.

Nokkrum klukkustundum síðar var eldflaugum skotið að Ísrael. Flestar þeirra voru skotnar niður af eldflaugavarnakerfi Ísraels. PIJ lýsti yfir ábyrgð á eldflaugaárásinni og sagði hana svar við drápinu á liðsmanni samtakanna í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×