Enski boltinn

Solskjær: Fernandes blanda af Scholes og Veron

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes skorar sitt fyrsta mark fyrir Manchester United.
Bruno Fernandes skorar sitt fyrsta mark fyrir Manchester United. vísir/getty

„Hann er svolítil blanda af Scholes og Veron,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, hæstánægður með hinn portúgalska Bruno Fernandes sem slegið hefur í gegn á fyrstu vikum sínum hjá enska félaginu.

Fernandes skoraði sitt fyrsta mark fyrir United í dag, úr víti sem hann náði í sjálfur, og átti sinn þátt í hinum tveimur mörkunum í 3-0 sigri á Watford. United keypti þennan sóknarsinnnaða miðjumann fyrir 47 milljónir punda (sú upphæð getur hækkað í 67,6 milljónir punda) frá Sporting Lissabon í janúar.

„Miðað við markaðinn í dag þá held ég að við höfum gert góð kaup. Hann hefur komið inn og staðið sig mjög vel, gefið öllum aukakraft og þannig gert meira en að vera bara nýr leikmaður. Hann hefur líka gert eitthvað fyrir áhorfendurna. Maður sér að stuðningsmennirnir eru vanir svona persónuleika, hugarfari og hæfileikum. Þetta er það sem stuðningsmenn hafa séð hjá mörgum United-leikmönnum í gegnum tíðina,“ sagði Solskjær eftir leikinn í dag.

„Frá fyrsta degi, frá fyrstu mínútu, hefur hann skapað sér sess í hópnum, heimtandi boltann á sinni fyrstu æfingu. Sumir leikmenn þurfa tíma til að komast inn í hlutina en hann var fullur sjálfstrausts frá upphafi,“ sagði Solskjær, og líkti Fernandes svo við tvo fyrrverandi leikmenn United:

„Hann er svolítil blanda af [Paul] Scholes og [Juan Sebastian] Veron, í rauninni. Hann er með skapgerð Verons og marga af hæfileikum hans og Scholes. Hann hefur staðið sig stórkostlega. Hann hefur sýnt hvaða persónuleika hann hefur, að hann er Manchester United-maður sem vill stíga út á Old Trafford, stöðugt vera að fá boltann, vill stjórna ferðinni og hjálpa liðsfélögum sínum. Það var frábært hvernig hann afgreiddi vítaspyrnuna,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×