Erlent

Sanders líklegastur í Nevada

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Bernie Sanders.
Bernie Sanders. Vísir/getty

Demókratar í Nevada halda forval fyrir bandarísku forsetakosningarnar í dag. Bernie Sanders mælist vinsælastur í ríkinu.

Nevada er fyrsta ríkið til þess að greiða atkvæði í forvalinu þar sem hlutfall hvítra íbúa er undir níutíu prósentum, er nánar tiltekið tæp sjötíu prósent og endurspeglar því betur Bandaríkin í heild en ríkin sem hafa þegar greitt atkvæði, Iowa og New Hampshire.

Hingað til hafa þeir Pete Buttigieg, fyrrverandi borgarstjóri, og Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður verið sterkastir og skipst á fyrsta og öðru sætinu með afar litlum mun.

Þetta gæti hins vegar breyst í Nevada, að hluta til vegna minna hlutfalls hvítra kjósenda. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Buttigieg átt á brattann að sækja á meðal svartra og rómanskættaðra kjósenda en þar er Sanders öllu sterkari.

Meðaltal skoðanakannana hefur sýnt þessa stöðu í ríkinu. Sanders langefstur með þrjátíu prósent en næstu fimm frambjóðendur á milli tíu og sextán prósenta.

Næst verður forval í Suður-Karólínu, þann 29. febrúar, og svo í fjórtán ríkjum í einu á svokölluðum ofurþriðjudegi, 3. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×