Bandaríski forsetaframbjóðandinn Mike Bloomberg segir að kvenkyns fyrrverandi starfsmenn hans, sem gert hafi verið hann samninga um trúnað, geti nú leitað til fyrirtækis hans og þannig komist undan þeirri þagnarskyldu sem samningarnir kveða á um.
Fjölmargar konur hafa sakað Bloomberg og fyrirtæki hans um mismunun og orðfæri sem einkennist af kvenfyrirlitningu.
Kastljósið hefur beinst að samningunum eftir að forsetaframbjóðandinn Elizabeth Warren spurði Bloomberg út í þá í kappræðum forsetaframbjóðenda Demókrata fyrr í vikunni.
Í yfirlýsingu frá fyrirtæki Bloomberg segir að farið hafi verið yfir gögn síðustu þriggja áratuga og upp úr krafsinu hafi komið að þrír slíkir samningar hafi verið gerðir.
Geti konurnar sem um ræðir nú leitað til fyrirtækisins og látið aflétta trúnaðinum.
Bloomberg er auðjöfur og fyrrverandi borgarstjóri New York, en hann sækist nú eftir að verða forsetaefni Demókrataflokksins í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember næstkomandi.