Innlent

Gengur erfiðlega að skipta út peningagjöf frá Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Forsvarsmenn setursins leita nú að einhverjum sem getur skipt peningunum.
Forsvarsmenn setursins leita nú að einhverjum sem getur skipt peningunum. Getty/Thomas Trutschel

Hópur kínverskra nemenda gaf Melrakkasetri Íslands í Súðavík um 300 þúsund krónur í gjöf í fyrra. Gallinn er að gjöfin var í kínverskri mynt og erfiðlega hefur gengið að fá henni skipt. Forsvarsmenn setursins leita nú að einhverjum sem getur skipt peningunum.

Það var hópur nemenda frá skóla í Ghangzhou í Kína sem gaf Melrakkasetrinu peninga. Undanfarin ár hafa hópar frá skólanum komið hingað til lands og munu þau hafa hrifist af Hornströndum, samkvæmt Fréttablaðinu.

Kínversku nemendurnir virðist mjög hrifnir af íslenska refnum.Vísir/Vilhelm

Enginn banki hér á landi vill þó skipta út peningunum kínversku og getur sendiráð Kína hér á landi heldur ekki hjálpað til.

„Okkur var bent á að næsti staður sem við gætum skipt seðlunum væri í London,“ segir Sæmundur Ámundason, framkvæmdastjóri Melrakkasetursins, við Fréttablaðið. „Við vitum heldur ekki hversu auðvelt er að ferða á milli landa með svona háa upphæð í reiðufé.“

Kínversku nemendurnir stefna á að koma aftur til Íslands á þessu ári og færa Melrakkasetrinu nýja gjöf. Sæmundur segir Kínverjana þó meðvitaða um að hafa gjöfina í mynt sem auðveldara verður að skipta út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×