Töluverður viðbúnaður er nú í Hanoi, höfuðborg Víetnam, eftir að tilkynnt var um þrettán kórónuveirusmit í borginni. Smitin eru öll rakin til einstaklinga sem komu til Hanoi með flugi Vietnam Airlines frá London 2. mars síðastliðinn, að því er fram kemur í frétt Bloomberg sem birt var í gær.
Í fréttinni kemur fram að 26 ára kona sem var farþegi í áðurnefndu flugi hafi greinst með kórónuveiru á föstudag. Hún hafði dvalið í London, París og Mílanó. Tveir menn tengdir konunni smituðust í kjölfarið af veirunni og síðar greindist annar farþegi í flugvélinni, 61 árs karlmaður, einnig með veiruna. Hátt í sextíu manns sem tengdust fólkinu voru þá settir í sóttkví.
Bloomberg greinir jafnframt frá því að heilbrigðisráðuneyti Víetnam hafi staðfest níu smit til viðbótar í gær. Um sé að ræða erlenda ferðamenn; sjö Breta, einn Mexíkóa og einn Íslending. Breska dagblaðið Telegraph greinir einnig frá því á vef sínum að Íslendingur hafi greinst með veiruna en viðkomandi er þó sagður Íri í öðrum fjölmiðlum.
Telegraph ræðir jafnframt við tvo breska bakpokaferðalanga sem sæta nú sóttkví í Víetnam. Þeir láta afar illa af dvöl sinni í sóttkvínni og líkja henni við fangelsisvist.
Verða áfram í sambandi við Íslendingana
María Mjöll Jónsdóttir upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir í samtali við Vísi að borgaraþjónustan viti af fjórum Íslendingum sem sæti nú sóttkví í Víetnam. Ekki sé hins vegar vitað til þess að nokkur þeirra sé smitaður af kórónuveirunni. Þá hafi fólki verið á ferð saman og hafi nýlega verið sett í sóttkví.Ekki fást frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins verður áfram í sambandi við Íslendingana.
Nokkrir Íslendingar hafa verið í sóttkví á Tenerife síðan í lok febrúar. María segir að ráðuneytið hafi ekki fengið upplýsingar um fleiri Íslendinga sem sæti sóttkví erlendis. Alls hafa nú verið staðfest þrjátíu kórónuveirusmit í Víetnam.
Fréttin hefur verið uppfærð.