Enski boltinn

Hinn átján ára gamli Gilmour átti næstum því fimmtíu fleiri heppnaðar sendingar en Gylfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Billy Gilmour fékk frábæra dóma en það er ekki hægt að segja það sama um Gylfa Þór Sigurðsson.
Billy Gilmour fékk frábæra dóma en það er ekki hægt að segja það sama um Gylfa Þór Sigurðsson. Samsett/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson kom ekki vel út úr samanburðinum við Billy Gilmour í 4-0 skelli Everton á móti Chelsea á Stamford Bridge í gær.

Billy Gilmour fékk frábæra dóma fyrir leik sinn á miðju Chelsea alveg eins og hann fékk í bikarsigrinum á Liverpool í síðustu viku. Það er óhætt að segja að þessi strákur hafi stimplað sig vel inn í sínum fyrstu leikjum fyrir aðallið Chelsea og það kepptust allir knattspyrnuspekingar við að hrósa honum í gær.





Gylfi Þór Sigurðsson fékk aftur á móti skelfilega dóma fyrir frammistöðu sína á miðju Everton og meðal annars falleinkunn hjá staðarblaðinu, Liverpool Echo.

Gylfi hefur ekki fundið sig á þessu tímabili og hefur ekki skorað fyrir Everton síðan um miðjan október. Gylfi er alls með eitt mark og tvær stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en síðasta stoðsendingin hans kom í leik á móti Watford 2. janúar. Gylfi hefur reyndar átt þátt í fleiri mörkum en Englendingar eru mjög harðir að taka stoðsendingar af leikmönnum hafi boltinn viðkomu í mótherja á leið sinn til samherja.

Gylfi var með fyrirliðaband Everton liðsins á Stamford Bridge og það kallaði líka á enn meiri gagnrýni hjá stuðningsmönnum og öðrum þegar honum gekk illa að komast í boltann. Gylfi var aftur á móti langt frá því að vera eini leikmaður Everton sem átti slakan leik.

Það er samt ótrúlegt að bera saman tölfræði Billy Gilmour og Gylfa Þórs Sigurðssonar í þessum leik en þeir voru báðir að spila inn á miðjunni. Þarna voru á ferðinni leikmaður í fyrsta byrjunarleik sínum í ensku úrvalsdeildinni og leikmaður sem var að spila sinn 273. leik í ensku úrvalsdeildinni.





Hinn átján ára gamli Gilmour kom nefnilega næstum þrisvar sinnum oftar við boltann en Gylfi í þessum leik og átti næstum því 50 fleiri heppnaðar sendingar.

Billy Gilmour kom 91 sinni við boltann á þessum 90 mínútur en Gylfi fékk boltann aðeins 34 sinnum. 93 prósent sendinga Gylfa heppnuðust vissulega en aðeins tíu þeirra voru fram á völlinn og aðeins tvær þeirra voru á síðasta þriðjungi vallarins.

Gylfi átti alls 49 færri heppnaðar sendingar en Billy Gilmour í leiknum eða 25 á móti 74. Það er rosalegur munur þegar báðir leikmenn eru að spila á nánast sama stað á vellinum. Hér fyrir neðan má sjá meira um tölur þeirra Billy Gilmour og Gylfi í leiknum.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×