Enski boltinn

Engir krakkar fá að fylgja leikmönnum inn á Anfield um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þeir krakkar sem áttu að fá að fylgja hetjunum sínum inn á Anfield á morgun þurfa að sitja heima.
Þeir krakkar sem áttu að fá að fylgja hetjunum sínum inn á Anfield á morgun þurfa að sitja heima. Getty/Jan Kruger

Liverpool hefur ákveðið að lukkudýrin á heimaleikjum liðsins séu komin í frí vegna Kórónuveirunnar.

Enska úrvalsdeildin ákvað í gær að banna öll handabönd í kringum leikina um helgina. Leikmenn munu því ekki heilsast fyrir leik eins og vanalega eða þakka dómurum fyrir leikinn með hefðbundnum hætti.

Liverpool hefur einnig brugðist aukalega við hættunni vegna útbreiðslu Kórónuveirunnar COVID-19 en það verða engir litlir fótboltakrakkar sem fylgja liðunum inn á völlinn fyrir leikinn á móti Bournemouth á morgun.

Þetta er örugglega mjög sárt og svekkjandi fyrir þá krakka sem áttu að fylgja liðunum inn á völlinn á morgun enda eflaust löngu ákveðið hverjir þeir voru.



Bresk stjórnvöld settu pressu á ensku úrvalsdeildarliðin til að gera ráðstafanir hjá sér vegna Kórónuveirunnar og hafa þau orðið við því. Liverpool hefur tekið mjög ákveðið á þessum málum.

Liverpool hefur bannað öllum starfsmönnum sínum að ferðast til landa þar sem mikil áhætta er að smitast af Kórónuveirunni og minnir alla sem koma á Anfield að huga vel af hreinlæti og smitvörnum.

Allir sem koma á æfingavelli Liverpool og aðrar starfsstöðvar félagsins þurfa líka að fara í gegnum sérstakt eftirlit.

Áhorfendur á Anfield á morgun eru fullvissaðir um að það verði spritt eða sótthreinsivökvi á öllum salernum á leikvanginum auk veggspjalda með upplýsingum hvernig best sé að haga sér.



Það sem verður þó kannski mest sláandi eru síðustu mínúturnar fyrir leikinn sjálfan. Leikmenn munu nefnilega ganga inn á völlinn án þess að leiða litla krakka og leikmenn munu heldur ekki heilsast með handaböndum fyrir leik.

Þessar varúðarráðstafanir verða framvegis í gildi eða væntanlega þar til að hættan vegna útbreiðslu Kórónuveirunnar minnkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×