Konum með þroskahömlun er oft ekki trúað þegar þær segja frá kynferðisofbeldi sem þær eru beittar að sögn verkefnastýru hjá Öryrkjabandalaginu. Horft sé á þær sem kynlausar verur.
Í nýjasta þætti Kompás er fjallað um fatlaðar vændiskonur, meðal annars konur með þroskahömlun. Hér má sjá þáttinn. Þar lýsir kona á fertugsaldri, sem er með þroskahömlun og glímir við ýmis geðræn vandamál, frá reynslu sinni af vændi. Hún segist oft hafa verið beitt ofbeldi.
Þorbera Fjölnisdóttir er í kvennahreyfingu Öryrkjabandalagsins og tók þátt í rannsókn um ofbeldi gegn fötluðum konum. Hún segir það sem leiði fatlar konur út í vændi sé það sama og ófatlaðar konur: fátækt og fíkn.
„Í fyrsta lagi eru örorkubætur svo lágar að það er ekki hægt að lifa mannsæmandi lífi á þeim, sérstaklega fatlaðar einstæðar mæður eru verst settar fjárhagslega," segir Þorbera.
Þá segir hún að konunum sé oft ekki trúað þegar þær segja frá kynferðisofbeldi.
„Þá er oft litið á fatlaðar konur sem kynlausar verur. Konur með þroskahömlun upplifa það oft að það sé litið á þær sem eilíf börn sem þær eru auðvitað alls ekki. Þeim hefur oft ekki verið trúað og þær hafa ekki fengið stuðning þegar þær hafa sagt frá og ekki fengið hjálp til að vinna úr málunum,“ segir Þorbera.

Þá telur hún að konurnar verði fyrir kynferðisofbeldi vegna jaðarsetningar sem þær hafa orðið fyrir í þjóðfélaginu.
„Samfélagið gerir ekki ráð fyrir okkur, fatlað fólk hefur til dæmis verið lokað inn á stofnunum, það ver fatlað fólk alls ekki fyrir ofbeldi að loka það inni. Þvert á móti, ég tala á grunni fjölmargra rannsókna, þessi aðgreining akkúrat skapar aðstæður það sem fatlað fólk verður fyrir mesta ofbeldinu,“ segir Þorbera.
Fólk sem aðstoði konurnar í daglegu lífi sé í sumum tilfellum gerendurnir.
„Þá ert þú í ofsalega erfiðri stöðu með að gera eitthvað í því af því þú ert háð þessum einstaklingi um aðstoð í þínu daglega lífi,“ segir Þorbera og bætir við að málin séu því flókin.
Mikilvægt sé að konurnar fái fræðslu um hvað sé heilbrigt samband og hvað sé ofbeldissamband. „Þannig að fólk læri að þekkja mörkin,“ segir Þorbera.