Enski boltinn

Ancelotti viðurkenndi að hafa látið illa

Sindri Sverrisson skrifar
Carlo Ancelotti er stjóri Everton.
Carlo Ancelotti er stjóri Everton. vísir/getty

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, var ekki úrskurðaður í leikbann vegna framkomu sinnar í garð dómarans Chris Kavanagh á sunnudag.

Ancelotti las Kavanagh pistilinn eftir jafntefli Everton og Manchester United en hann var afar óánægður með að mark sem Everton skoraði í uppbótartíma skyldi ekki fá að standa. Markið var dæmt af þar sem Gylfi Þór Sigurðsson var dæmdur rangstæður þar sem hann lá fyrir framan David de Gea, markvörð United, þegar skot Dominic Calvert-Lewin fór af Harry Maguire og í netið.

Ancelotti hreyfði engin andmæli við kæru enska knattspyrnusambandsins þess efnis að hann hefði hagað sér ósæmilega en hann þarf að greiða 8.000 pund í sekt, jafnvirði um 1,3 milljónar króna. Með því að viðurkenna sök slapp Ítalinn við leikbann.

Ancelotti verður því til staðar þegar Everton sækir Chelsea heim á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir

Ancelotti kærður en fær ekki bann

Enska knattspyrnusambandið ákvað í gær að kæra Carlo Ancelotti, stjóra Everton, fyrir hegðun sína eftir leik Everton og Man. Utd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×